pleijlisti Take Me Home!! um mig

nóvember 27, 2005

Tilvitnun.

"Blöögið - þessi fagri, ógleymanlegi endurminningastaður allra Íslendinga, þessi samkomustaður vitsmuna og hreysti fornaldarinnar en undrunar- og uppgötvunarstaður seinni tíma - frá hve mörgum atburðum, sem nú eru fallnir í gleymsku, mundi Enjar ekki geta sagt, hversu mörgum nýlundum úr fornöldinni mundu ekki Internet-vættir geta brugðið upp fyrir sjónum hins forvitna ferðamanns, er Enjar í þegjandi undrun þræðir götuna milli hinna hátignarlegu en voðalegu hamragarða Árbæjarskóla og nemur staðar, seiddur af einhverju ókenndu afli, við rústir gömlu Nótaúnsbúðarinnar og litast um? En sjá! Þar er ekkert orðið eftir af hinni fornu rausn og stórmennsku, hvorki tangur né tetur. Til vinstri handar blasa við rústir, sem fyrir löngu eru moldu og grjóti orpnar. Til hægri handar mótar óljóst fyrir Hlaðbúð, og hér og hvar mæta auganu mosa og grasi grónar rústir, er sýna aðeins litlar menjar þess, að einhver mannleg, en þó sterk hönd hafi fjallað um þær. Þessi þögulu, mosavöxnu, jarðföstu björg hafa betur geymt minningu feðra vorra gegn eyðingu tímans, en vanþakklátir niðjar þeirra. Þau hrópa jafnan eins hátt og sjálf Elliðaá til ferðamannsins, svolátandi: "Hér hafa kappar dvalið, hér eru gömul heimkynni vitsmuna og hreysti". Við þetta þögula mál rústanna hefur ferðamaðurinn upp höfuð sitt og litast um, en alls staðar ríkir hin sama gleymska og eyðilegging, niðri á hinum fornu, fögru völlum, þar sem Leikskóli Enjars fyrr stóð, svo tignarleg og þýðingarmikil, og grúi hlaðbúða og virkisbúða umhverfis, þar er nú dauða-auðn ein.

En fyrst gleymskan er ein af plágum og ásteytingarsteinum mannlífsins, þá muntu, undrandi ferðamaður, feginsamlega renna augum þínum í skuggsjá þá, sem Internet-vættir bregða fyrir augu þér. Þær eru nú á heimleið frá hryggðarhátíð sinni við Árbæ, og þú ert svo heppinn að verða á vegi þeirra.

Sjá, í austri rennur upp sólin í allri sinni geisladýrð, sem vaninn aldrei getur rýrt aðdáun vora fyrir. Máninn læðist, bleikur og feiminn, fyrir birtu hennar bak við gráhvítt þokuský. Sjáðu, hversu hún skín blíðlega á gamla skjáinn, sjáðu, hversu skuggarnir virðast hoppa af einni gjá á aðra, og geislarnir fæðast og deyja, hver í annars fangi, sjáðu, hversu daggardroparnir hanga ennþá glitrandi á hverju strái, og hversu þeir hægt og hægt hverfa fyrir geislum hennar. Líttu líka fram til Skjaldbreiðar. Hversu hátignarlega gnæfir ekki í dag höfuð hennar ísperlum skreytt yfir gamla Þingvöll? Situr hún ekki þarna, óbreytt frá í fornöld, eins og verndarvættur hans? Jú, hún veit vel, að þessar geigvænlegu gjár og háu hamrar, sem hafa verið skjöldur hans, sverð og vegsemd um aldur og ævi, er hennar eigið, storkið hjartablóð. En snúðu þér, maður, frá þessari gömlu, svipmiklu mynd, og horfðu á Enjar eins og hann er í dag. Taktu vel eftir öllu því, er vættirnir sýna og segja þér. Þær hafa sjálfar séð alla viðburðina, þær benda þér austur að Háskólanum í Reykjavik, og þar eð óvíst er, að þessi sjón mæti þér oftar en einu sinni, þá notaðu vel augu og eyru."

- Höfundur óþekktur.

Temp síða opnuð, jafnvel að maður riggi upp einhverju skárra útliti upp um jólin

Lifið heil!

Blöögað þann 27.11.05 22:37 | Kommentar (3)